Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2006

Eru prófkjör eitthvað fyrir þig?

Nú eru fimm dagar til kosninga. Það má velta fyrir sér hvaða gagn er að prófkjöri sem svo til einvörðungu snýr að persónulegri kynningu frambjóðenda. Ekki veit ég hvort málefnin skipta einhverju. Í það minnsta ber ekki á málefnaágreiningi milli frambjóðenda. Einhver hrepparígur, annað ekki. Eftir nokkra mánuði verða svo einhverjir úr hópnum að stilla saman strengi í málefnabaráttu sem er auðvitað allt önnur en kynning og barátta á persónulegum forsendum. Þá reynir á allt aðra eiginleika en frambjóðendur eru að sýna í þessu persónukjöri. Sameiginlegir fundir virðast hafa farið í vaskinn að mestu leiti en fundur á Akureyri á miðvikudagskvöld verður vonandi haldinn. Ég hef ekki átt þess kost að mæta á marga fundi. Mætti á þrjá fyrstu fundina en vona að heimsóknir mínar á alla þéttbýlisstaði kjördæmissins skili einhverju, í það minnsta er ég miklu nær um margt.

Hvað kostar prófkjörssslagur?

Nú eru komnar fram spurningar um kostnað við prófkjör frambjóðenda Sjálfstæðisflokksins. Þær munu birtast í Austurglugganum í næstu viku ásamt svörum við nokkrum spurningum. Ég fór yfir minn kostnað og þá kemur í ljós að það er drjúgt að birta auglýsingar í mörgum staðbundnum blöðum. Einnig er erfitt að meta vinnutap, það er afstætt. Ef hugað er að skemmtana- og fróðleiksgildi þá koma vonandi allir út á sléttu. En prófkjör af þessu tagi er aðferð gærdagsins og eiga ekki framtíð fyrir sér. Svona verður ekki staðið að málum næst. Til að viðhalda spennunni þá læt ég bíða að birta minn kostnað opinberlega uns Austurglugginn kemur út.

Hálendisvegir? Hvenær koma þeir?

Þegar ófærð og óveður krydda tilveruna er rétt að huga að því hvernig hálendisvegir yfir Kjöl og Sprengisand myndu minnka kryddið. Eins undarlegt og það er þá er ekki mikil snjósöfnun á þessum leiðum og þá sérstaklega Sprengisandi, en veður geta verið slæm. Vegagerð vegna virkjana er þegar hafin á þessum leiðum og er aðallega nýtt sem leið fyrir túrista. Því verður haldið áfram. Einnig mætti vel hugsa sér að leggja rafknúinn einteinung sem gengur á 400-500 km hraða á klukkustund milli tveggja staða á þessum leiðum og koma ferðatíma t.d. milli Mývatnssveitar og Hellu/Hvolsvalllar niður í 30 mínútur. Ekkert væri tekið frá þeim sem kæmu til að njóta útsýnis og lélegra vega en aðrir, sem væru einungis að komast (eða koma vörum) milli A og B á sem skemmstum tíma, yrðu kátir. Hvað finnst þér?

Hvernig á að vinna prófkjör?

Nú styttist í prófkjörið þann 25. nóvember. Í morgun fékk ég vefpóst frá skrifstofu flokksins um að 142 væru nýir á skrá í kjördæminu. Það er í sjálfu sér ágætt en það vinnur enginn þetta prófkjör á þeim atkvæðum einum saman. Ég og mínir stuðningsmenn tókum þá ákvörðun að fara ekki ofan í flokkskrár félaganna í kjördæminu. Sjálfsagt er auðvitað, að þeir sem bjóða sig fram eigi þess kost að vita hverjir eru væntanlegir kjósendur, en við mátum meira að komast á alla staði og hitta fólk hvort sem það er í flokknum eða ekki. Ekki sést utan á fólki í hvað stjórnmálaflokki viðkomandi er. Innskráning þúsunda í flokkinn rétt fyrir prófkjör er samt aðeins verð íhugunar. Það er ekkert sem bannar kjósendum að vera í tveimur stjórnmálaflokkum, jafnvel fleirum. Það er raunar réttur hvers og eins að vera í hvaða félagi sem honum sýnist og taka þátt í störfum þess, eins og t.d. prófkjöri. Vei þeim sem reyndi að koma í veg fyrir slíkt. Það kallaði á samkeyrslu skráa flokkanna, sem verður vonandi aldrei leyfilegt. Í þessu sambandi hef ég velt því fyrir mér hvort ekki sé eðlilegt að geta verið í tveimur trúfélögum samtímis, jafnvel fleirum. Séra Þorgrímur á Grenjaðarstað sagði strax nei. En myndi það ekki auka þekkingu og víðsýni?

Hlustaðir þú og horfðir á Silfur Egils?

Á sunnudaginn síðasta var ég boðaður í sjónvarpsþáttinn hjá Agli Helgasyni og silfri hans. Slóðin er http://www.visir.is/apps/pbcs.dll/section?Category=VEFMIDLAR&Template=VefTV&ChannelID=10 og þarf síðan að velja þar þáttinn Silfur Egils og útsendingu 12. nóvember, - ef einhverjir hafa áhuga. Það var fróðlegt að heyra hvað helst var rætt í hópi þátttakenda í sminki og blinki (undirbúningi upptöku). Úrslit í Suðurkjördæmi hjá Sjálfstæðisflokknum og svo málefni annarra en íslendinga á Íslandi báru þar helst á góma.
Ég vona að einhverju hafi menn verið nær um mig og mínar skoðanir eftir þáttinn sem var auðvitað langt í frá tæmandi, en gaman var að fá tækifæri til að láta ljós sitt skína.

Eru prófkjör tímaskekkja?

Nú liggja fyrir niðurstöður úr nokkrum prófkjörum. Það er greinilegt að tvennt ræður niðurröðun á listum hjá kjósendum. Í fyrsta lagi er það búseta í þeim kjördæmum þar sem um það er að ræða og svo er það magn og gæði auglýsinga. Ekki virðist ráða öllu hvort frambjóðandi hafi aðstöðu þingmanns eða ekki þegar í prófkjör er haldið. Er það íhugunarefni hvernig best verði komið til móts við óskir um að hafa áhrif á niðurröðun lista án þess að særa heilbrigða skynsemi. Af hverju halda flokkarnir ekki opin prófkjör sama daginn hjá öllum? Það er hvort eð er ljóst að fólk tekur flokksskráningu ekki hátíðlega lengur og reglur flokkanna eru hálfhallærislegar í öllu þessu. Jæja þau eru bara súr! Fundur var hér hjá frambjóðendum í Ljósvetningabúð í Köldukinn í gær. Fundurinn var bráðskemmtilegur. Aðallega voru sagðar góðar sögur af framsókn, enda af nógu að taka. Mæting var að vísu ekki eins góð , sex mættu auk þriggja frambjóðenda. En einhvern veginn fannst öllum að salurinn væri fullur af fólki enda hlýtur að vera einhver pólitík hinum megin! Það er alltaf gaman á svona fundum. Það er greinilegt að þjóðlendukröfurnar eru ofarlega í hugum manna, kallast þjóflendukröfur hér í sveit. Verður að kalla eftir því hvort kröfur nefndarinnar eru í einhverju samræmi við umboð hennar sem kemur frá Alþingi.

Fundir frambjóðenda skemmtifálegir eða fáskemmtilegir?

Nú hafa tveir fundir í fyrirhugaðri fundarröð frambjóðenda verið haldnir. Fyrsti fundurinn var í Mývatnssveit. Þangað komust tveir frambjóðendur, undirritaður tilvonandi alþingismaður og Arnbjörg Sveinsdóttir núverandi alþingismaður. Aðrir frambjóðendur komust ekki á fundinn vegna veðurs og færðar. Segir það mikið um ástand okkar vegakerfis því viljinn var mikill að koma. Fimm mývetnskir framámenn börðust á fundinn í góðu veðri og auðum vegum, fögnuðu okkur og föðmuðu og spunnust miklar og fróðlegar umræður, sérstaklega um nýframkomnar hugmyndir um þjóðlendur og atvinnuhorfur í sveitinni í framtíðinni. Var fundurinn skemmtilegur en frekar hávær á köflum

Nú er það fundaröð frambjóðenda!

Frambjóðendur hefja fundaröð um kynningu á prófkjörinu og þátttakendum á morgun föstudag. Byrjað verður í Mývatnssveit kl 17:00 föstudag að Sel-Hótel og síðan farið til Húsavíkur og fundur þar kl 20:00 á veitingahúsinu Sölku. Á laugardag verður fundað í Ljósvetningabúð fyrir Aðalddal og Þingeyjarsveit og svona heldur rútan áfram.
Sjálfur reyni ég að komast suður í smáborgina þar sem ég er með fund um lífeyrismál hja Tannlæknafélaginu og kem heim á morgun til að ná í fund inn í Mývatnssveit.
Komin er þíða og sunnanþeyr og best að far að tygja sig. Taka nokkrar kaffistofur á Húsavík áður en ég fer í flug frá Akureyri. Það er slæmt fyir mig sem stjórnmálamann að drekka ekki kaffi . Séð hef ég skugga færast yfir andlit margra húsfreyjanna þegar ég afþakka kaffi þeirra. Kaffiuppáhellingin er eins og sakramenti hjá mörgum. En allt fellur í ljúfa löð þegar ég tek til við pönnukökuát. Þær eru mitt uppáhald. En bara vatn með, takk fyrir. Dreymdi mikla sigra, heljar fagnaðarlæti og kossa margra kvenna en vaknaði við að hundurinn var að bofsa og sleikja á mér kinnina. Hvað boðar þetta eiginlega?

Og nú eru það nágrannasveitir

Eftir að haf talið hundruð kinda og nokkrar hjálmóttar kýr í gærkvöldi sofnaði ég vært og svaf til níu. Það hefur ekki gerst í háu herrans tíð. Lagði af stað í litla kosningaferð í Aðaldalinn. Var tekið með kostum og kynjum í Árbót, tókum rispu um gang mála. Þetta meðferðarheimili er orðinn stærsti vinnuveitandinn í Aðaldal. Það er svo sem ekki það sem máli skiptir, heldur að hér er verið að ná árangri. Tekist á um nokkur mál en allir skildu sáttir. Ég hélt áfram og kom við að Laugum í Reykjadal og hélt síðan upp í Mývatnssveit. Fegurðin var mikil, en stjórnmálin snúast ekki um það svo ég varð að stoppa og ræða við bóndann í Garði sem var að lesta dráttarvél til flutnings. Sagðist hann þurfa hugsa sig vel um áður en hann kysi mig. Hélt áfram um sveitina, hitti nokkra og missti af einhverjum. Merkilegt hvað hús eru flest illa sett í sveitinni. Líklega er það af því að Náttúruverndin ræður skipulagi og því fjarlægja menn ekki hús nema þau seú hrunin. Ók heim um Hólasand. Þar voru vegaframkvæmdir og hvílik samgöngubót er allur sandurinn verður lagður færum vegi. Lúpinan brosti við mér, hún vinnur sitt verk við endurheimt landgæða á 130 ferkílómetra fyrrverandi eyðimörk. Ef ég eignast góða hryssu ætla ég að skýra hana Lúpínu.

Og áfram heldur kosningaferðalagið.

Lagði land undir hjól snemma. Fór inn í Reykjahverfi sem er nú hluti
nýja sveitarfélagsins Norðurþing. Kýrnar í Víðiholti tóku mér fagnandi.
Ekki misheyrðist mér er þær bauluðu á Samfylkinguna og bauð ég Jóni
bónda að skrá þær allar í flokkinn. Þær eru flestar hjálmóttar og
eitthvað dyntóttar svo ekki fer á milli mála hverjar þær eru, og hvern
þær styðja. Ræddum um landbúnað og horfur. Íslenskur landbúnaður á sér
vissulega framtíð en ekki á einhverjum samkeppnismarkaði ríkra sænskra
bænda sem gera út landbúnað sinn í Eystrasaltslöndunum.
Hjarðsauðfjárbúskapur okkar er tímaskekkja og nauðsynlegt er að
eigendur hugsi um sínar jarðir. Eyðibyggð er ömurleg. Þvílíkur
dugnaður. Fjörutíu flokksbundnar mjókurkýr.
Fór um dali og tefldi við, næstum því fulltrúa páfa í héraðinu, séra
Þorgrím á Grenjaðarstað, vann vegna afleiks prests í erfiðu miðtafli og
þótti mér það miður. Var það engin kurteisi af mér að vinna tilvonandi
atkvæði svona og lofa ég bót og betrun næst er við teflum skák saman.
Kom við á nokkrum bæjum. Hélt svo sem leið liggur um Ljósavatnsskarð,
kom m.a. við á Stóru-Tjörn (eins og Ólafur skólastjóri vill kalla
staðinn, minnir mig) og varð lítt ágengt.
Fór til starfsbræðra minna og systra á Akureyri og endaði daginn með
heimsókn á kosningskrifstofur keppinauta minna. Skelfing var ég glaður
að þurfa ekki að opna kosningaskrifstofu en góður var allur
viðurgjörningur og mikið fjör á skrifstofunum.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Sigurjón Benediktsson
Sigurjón  Benediktsson

Ég er fyrrverandi tannlæknir á Húsavík til 37 ára, fyrrverandikennari við Tannlæknadeild Háskólans í Tromsö. Starfa nú sem óhaður tannlæknir á Íslandi. Er ekki í framboði. Netfangið mitt er: skefill@gmail.com

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband