Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2006

Fréttastofa RUV: Hefði hún verið hleruð 1949?

Það bar við í fréttum kvöldsins að forsætisráðherra átti síðasta orðið í umræðum frá Alþingi. Tók sérstaklega eftir þessu þar sem þetta gerist ekki í fréttum RUV. En viti menn! Í fréttaágripi að loknum meginfréttum, kom ekki Steingrímur Joð og kláraði umræðuna! Já, RUV svíkur ekki á aðventunni frekar en endranær! Annars var gaman að heyra sagnfræðinginn Guðna Th ræða um þessar hleranir af nokkurri skynsemi enda maðurinn búinn að hafa af þessum hlerunum vinnu mikla og góða, og kynningu allnokkra. Á seinni tíma hlerunarskeiðinu var alþekkt að myndir voru teknar af öllum í öllum mótmælagöngum. Ég var í þeim nokkrum. Ekki hef ég nokkrar áhyggjur af því að einhver sé að gamna sér yfir þessum gömlu myndum. Þær eru raunar merkileg heimild. Af hverju eru þessar hleranir svona merkilegar? Heyrt undir húsvegg var það einu sinni, hvíslað í kirkjunni á öðrum tíma, köld kvennaráð í annan tíma. Níutíu og niuprósent allra svona njósna og feluleiks eru atriði sem hægt er að afla sér vitneskju um á annan hátt hvort eð er. Af hverju er fólk svona heilagt? Var þetta fólk að tala eitthvað í símann sinn sem enginn mátti heyra? Afhverju? Snúum við spurningunum. Kom eitthvað út úr þessum hlerunum sem þoldi ekki dagsljósið? Á EKKI að hlera síma til að koma í veg fyrir glæpi? Á EKKI að hlera síma fíkniefnabarónanna? Línan milli lögregluríkis og upplausnar er oft grönn og titrandi.

Hver er munur á hlerun og tölvuinnbrotum?

í þessari umræðu um hleranir (sem eru þó byggðar á einhverri lögfræði) þá kemur upp í hugann hvort eitthvað annað sé upp á teningnum í dag. Daglega , já oft á dag er reynt að komast inn í tölvuna mína og þína. Ekki hef ég hugmynd um hver eða hverjir eru þar á ferð. Gæti verið bróðir minn stóri.Tölvan mín segir mér einfaldlega að þetta og hitt hafi verið reynt til að komast inn á harða diskinn á tölvunni. Þekkt er, að tiltölulega auðvelt er að komast í tölvupóst annarra aðila, lesa hann, dreifa honum, nota hann eða misnota og það er aðeins toppurinn á ísjakanum. Þetta blog hjá Mogga gamla er aldeilis frábært. Allir eru með allt opið og segja hug sinn og skoðanir svo það eru eiginlega engin leyndarmál á ferðinni. Eru einhverjir sem skanna blogsíður allan daginn til að komast að einhverju misjöfnu sem enginn veit? Jæja það er þó gott að einhverjir eru að lesa þessar blogsíður, - aðrir en við bloggarar, ef mér leyfist að skreyta mig þeim titli.

Síðasta prófkjörið?

Þó prófkjör séu skemmtileg þá er ekki víst að aðferðin sé réttlætanleg þegar á allt er litið. Víst eru þau súr á stundum, berin blessuð en það hlýtur að vera til auðveldari og ódýrari leið til að stilla upp á lista stjórnmálaflokks en lokað prófkjör eins og hér fór fram í NA-kjördæmi. Mér reiknast til að heildarkostnaður við prófkjörið í NA-kjördæmi sé ekki undir 25 milljónum íslenskra króna, sjálfsagt hærri. Betra væri að eiga þessa aura í baráttunni um völd flokks fremur en að nota þá í stríð einstaklinga um persónulega stöðu. Til að koma á móts við óskir flokksfélaga og jafnvel annarra að geta valið milli einstaklinga, án afskipta flokkseigenda eða ráðandi afla, mætti vel hugsa sér að allir flokkar hefðu prófkjör sama daginn, opið öllum. Til að tryggja nýliðun og eðlilega kynningu þá mætti hver auglýsa eins og hann vildi en það yrði að leggja jafnmikið fé á móti í viðkomandi flokkssjóð vegna alvörukosninganna. Eitthvað bókhaldsvesen---- en þetta gæti dugað til að halda þessu niðri og bera upp kostnaðinn við alþingiskosningarnar. Sá kostnaður þyrfti þá ekki að koma beint úr vasa almennings, eins og verið er að stinga uppá. Það liggur í loftinu, að dagar prófkjara eins og við vorum að upplifa, sé liðinn. Ég tel reyndar að við höfum verið tiltölulega heppin. Þetta gekk vandræðalaust og án blóðsúthellinga og ég veit ekki betur en allir séu sáttir. En hvað næst?

Vegabætur, fyrir hverja?

Nú er ég að hlusta á staðreyndaupptalningu um að tekjur af vegum og umferð hafi aukist um 40% en framlög lækkað um 22% á síðustu tíu árum. Ekki hef ég getað sannreynt þetta en tek þessu sem staðreyndum og þá er nú enn sérkennilegra að hlusta á hugmyndir ráðherranna í NV og S kjördæmum um fjórfalda vegi, upplýsta og með sérstökum burði í þeirra kjördæmum, - og þar er auðvitað aðeins verið að ræða um veg númer eitt. Ef við ætlum að horfa á þetta gerast í stað þess að koma okkar hagsmunum á framfæri þá erum við í slæmum málum. Það VERÐUR að koma vegagöngum hér á í framkvæmdaham. Annað er fráleitt.

Úrslit liggja fyrir!

Svona er lífið! Ég hlaut áttunda sætið í prófkjörinu, þökk sé félaga mínum á Siglufirði sem hlaut það níunda. Ég dáist samt að einurð og dug félaga minna sem kusu mig í fyrsta sætið en þeir voru 101, og 100 til viðbótar kusu mig í annað sætið. Samtals sáu 1402 ástæðu til að hafa mig á lista sex efstu í þessu prófkjöri. Ég þakka fyrir það. Bæjarstjóri Akureyringa sigraði glæsilega og ég tel að Arnbjörg hafi unnið varnarsigur því vissulega var að henni sótt. Ólöf lagði mikið undir og uppskar vel en samkvæmt tölunum þá er ljóst að stuðningsmenn Kristjáns hafi sett hana í annað sætið fremur en Þorvald sem hlaut fjórða sætið. Ljóst var í þessum kosningum að blokkamyndun myndi ráða miklu um endanlega röð og þeir sem lítið hafa fram að færa í þeim slag verða útundan. Hér í Norðurþingi öllu voru 202 á kjörskrá sem blokkarhöfðingjum þykir ekki stór biti. Enda stóð mitt hérað eindregið með mér og ég er hreykinn og ánægður með það. Og þakklátur. Margt fróðlegt má svo lesa út úr tölunum en skemmtilegt var þetta. Og er það ekki það sem skiptir máli þegar öllu er á botninn hvolft?

Að loknu prófkjöri

Já nú fer maður bara í hugleiðsluna. Gekk í bæinn í morgun, nýfallinn snjórinn var fallegur en ógnvekjandi, veit ekki hvað verður um hann ef Kári fer að blása. Eins er það með stjórnmálin og mennina þar. Hvað gerist þegar fer að blása?
Í gær fór ég við þriðja mann í Skúlagarð, sem nefndur er eftir Skúla landfógeta Magnússyni, félagsheimili þeirra Keldhverfunga og hitti þar kjörstjóra prófkjörsins. Það var áður en kjörstaður var opnaður svo allt var þetta innan reglna. Fór að hugsa hversu margir leggja fram vinnu af áhuga og drift í svona fyrirbæri eins og prófkjör er. Líklega er ekkert ómögulegt meðan eitthvað er til af svona fólki sem er til í að taka til hendinni þegar á þarf að halda.
Skoðaði flóðasvæðin eftir krapastíflur í Jökulsá en þar var allt með kyrrum kjörum. Í gær gengu tæplega áttatíu manns í Sjálfstæðisflokkinn hér. Fyrir voru 81 svo hér er um tvöföldun í félagatalinu að ræða. Á kjörskrá voru rétt rúmlega 200 og 175 kusu. Þetta misræmi er til komið af því að hér voru skráðir á kjörskrá félagar úr sveitunum sem hafa sitt eigið félag og gátu kosið hvar sem er. Þátttaka hér er því gríðarlega góð eins og annarsstaðar og við bætist að eitthvað eigum við af utankjörstaðaatkvæðum. Allt eykur þetta spennuna og óvissuna en vissulega var mikil hvatning í gangi í öllu kjördæminu.
Fékk athugasemd frá kjörstjórn vegna auglýsingar í Morgunblaðinu þar sem eitthvað fálkatetur var sýnilegt á auglýsingu sem ég bar raunar enga ábyrgð á. Vona að enginn hafi tapað á því nema ég. Ég hef verið spurður hvort áhugi minn á blogskrifum nái aðeins til þessara kosninga . Ég held að ég eigi eftir að halda áfram þessum skrifum. Ég hef aðeins fylgst með skrifum manna sem hafa sinnt þessu vel og af fagmennsku og vona að einhvern tímann verði ég eins góður og þeir, í mínum skrifum.
Er að fara inn á Akureyri til að vera viðstaddur er fyrstu tölur birtast.

í dag er prófkjörsdagur

Eitthvað klikkaði ritill minn í gær. Var búinn að semja hástemmda kosningalofræðu um sjálfan mig. En hún bara hvarf! í dag er það svo of seint að flytja fagnaðarerindi mitt um sjálfan mig. Skemmtilegur var fundurinn á KEA Akureyri á fimmtudagskvöldið. Mér þykir miður að yfirritstjóri Sjálfstæðisflokksins á Akureyri (Stefán Friðrik, flott blogg hjá honum ) skipti ekki um skoðun á einu eða neinu á fundinum. Til hvers eru svona fundir eiginlega?
Ég skipti um skoðun á mörgu á fundinum en ætla samt að kjósa mig. Gamla íhaldið í manni alla tíð. En fundurinn hlýtur að hafa einhver áhrif. Til hans var boðað með einhvern tilgang í huga!

En hvað með göng og styttingu veglína?

Nú þegar samgönguráðherra hefur lýst sýn sinni í vegamálum er rétt að staldra við. Eins gott og það er að fjórfalda vegi, lýsa þá upp og breikka, og reisa göngubrýr, er ljóst að mikið af þeim 26-18 eða 24 hjóla trukkum sem aka á vegunum, eru með farm sem allt eins gæti duggað sér í hraðskreiðum skipum milli hafna landsins (sem eru líka samgöngumannvirki). Það sem er helst til vandræða eru vegatálmar, ónýtar brýr, fjallvegir sem verða ófærir, lélegir vegir án slitlags.Lækning þessara meina er fyrst og fremst fólgin í gangagerð, styttingu veglína og góðar brýr. Flugvellir eru einnig samgöngumannvirki, vannýtt og þarfnast viðhalds og þar eru einnig tækifæri. Fjórföldum vegina, húrra fyrir því, en gleymum ekki því sem út af stendur.

Að hafa áhrif og traust

Til að geta haft áhrif á gang mála þarf að hafa traust fólks. Traust er grundvöllur þess að mark sé tekið á hugmyndum og áformum. Traust er mikilvægt í samskiptum við aðra. Til að ná árangri verður að ríkja traust. Þeir sem sækjast eftir áhrifum verða að njóta trausts. Því er það einkennilegt þegar frambjóðendur eru að lofa einhverju sem þeir vita að þeir geta ekki staðið við. Eða bregðast trausti fólks. Enn undarlegra er að upplifa að frambjóðendur hafa ekki sjálfstraust. Frambjóðandi verður að treysta sjálfum sér til verka, það er svo annarra að dæma um hvort það verði til góðs fyrir samfélagið. Þesssi hugleiðing er fram sett í ljósi prófkjara sem farið hafa fram að undanförnu. Viðbrögð manna eru svo misjöfn við úrslitum, enda úrslitin oft óvænt eða misjöfn! Harka í prófkjöri hjá flokki manna sem eiga að standa saman er á margan hátt erfið , oft óviðeigandi, stundum spillandi, alltaf særandi. Kosningaskrifstofur einstaklinga í prófkjöri eru sérstök fyrirbrigði. Engin skrifstofa verður opnuð í mínu nafni vegna prófkjörsins n.k. laugardag. Fáið ykkur endilega kaffi og kökur hjá þeim sem hafa haft fyrir því að opna slíkar skrifstofur, látið líka aka ykkur á kjörstað á þeirra kostnað. En kjósið samkvæmt sannfæringu ykkar. Ég treysti á það.

Eittþúsund gestir á blogsíðunni!

Já það er svo ! Eittþúsund innlit á þesum stutta tíma. Það er ótrúlegt því stóri flokkurinn minn hafði eitthvað á móti því að síður frambjóðenda kæmust til skila. T.d. var mér meinað að koma þessari litlu blogsíðu inn til kynningar á síðum flokksins. Síðan rankaði risaeðlan við og allt er núna kynnt á islendingur.is, heimasíður, blogsíður og fleira um prófkjörið. Það er ljóst að háhraðatenging er eitt af bestu málum sem hægt er að vinna að. Menntun og menning og mannleg samskipti eru komin til að vera á netinu. Eflum það en höldum því eins "hreinu" og hægt er.

Næsta síða »

Höfundur

Sigurjón Benediktsson
Sigurjón  Benediktsson

Ég er fyrrverandi tannlæknir á Húsavík til 37 ára, fyrrverandikennari við Tannlæknadeild Háskólans í Tromsö. Starfa nú sem óhaður tannlæknir á Íslandi. Er ekki í framboði. Netfangið mitt er: skefill@gmail.com

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 18
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 18
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband