Leita í fréttum mbl.is

Um lipra lækna í Reykjavík - mbl 13.09.1995

Morgunblaðið 

Miðvikudaginn 13. september, 1995 - Velvakandi Um lipra lækna í Reykjavík og ruslaralýð úti á landi  

UPP á síðkastið hafa skrif nokkurra lipurra lækna lætt því inn hjá mér að ég sé asni. Asninn ég hef ekki fattað að sjúkdómar mínir og lumbrur séu svo vel örtuð fyrirbæri að einungis heimskunnir doktorar á dýrustu sjúkrahúsum heims hafi þekkingu og getu til að lina pínu mína og svæsnar innantökur. Í gegnum skrif læknanna lipru les ég, að læknaaular úti á landi gefa mér aðeins falskt öryggi og meti krankleika mína ekki að verðleikum. Heimskunnir doktorar á "stóru" sjúkrahúsunum tryggi á hinn bóginn, að líkami minn fái þá gæðaþjónustu sem hann á svo sannarlega skilið. Eða svo segja læknarnir lipru. Ég á svo mikið gott skilið, jú jú, það er víst satt og rétt.

 

"Fjármunir fylgja sjúklingum"

 

Eitt í skrifum læknanna lipru vafðist aðeins fyrir mér. Það voru vangaveltur þeirra hvort rekstrarumhverfi sjúkrahúsanna væri hagkvæmt. Niðurstaða læknanna lipru er nefnilega sú, að fjármunir fylgi sjúklingum (!). Orðrétt í Morgunblaðinu 5. september (um hvaðan rekstrafé sjúkrahúsa erlendis sé komið): "Fjármunir fylgja (þar) sjúklingunum". Þvílík hamingja okkar sjúklinganna. Ég er ríkur maður því að hrotum mínum og vörtum fylgja nú gríðarlegir fjármunir! Ilsig mitt og bóla á nefi eru fjársjóðir sem mér voru haldnir. Rasssæri mitt og ristilóhljóð eru þvílíkar gersemar að annað eins fyrirfinnst varla, nema þá hjá þeim sjúklingum sem komnir eru í líkhúsið. Því varla verður þetta skilið á annan hátt en þann, að því meiri skaði, sem er á þessum líkamsgarmi, sem við erum að burðast með, því meiri auðlegð fylgi "sjúklingnum".

 

Ekki dettur mér í hug að læknarnir lipru hafi hugsað að þessir fjármunirnir fylgdu sjúklingunum aðeins inn á læknastofur þeirra og heilbrigðisstofnanir en síðan ekki þaðan út aftur. Nei, nei, læknarnir lipru eru að hugsa um sjúklinginn sinn.

 

"Stóru sjúkrahúsin á Reykjavíkursvæðinu"

 

Eftir að hafa sannfærst um að ég væri afar verðmætur sjúklingur sá ég að "stóru" sjúkrahúsin á Reykjavíkursvæðinu eru bara alls ekki nógu stór og fín fyrir alla fínu, dýru sjúkdómana mína. "Stóru" sjúkrahúsin á Reykjavíkursvæðinu eru nefnilega svo lítil að allur gamli Landspítalinn til dæmis er aðeins eins og móttakan í háskólasjúkrahúsinu í Birmingham í Alabama.

 

Og hvernig getum við best tryggt "gæðaþjónustu", eins og tungum læknanna lipru er svo tamt að gleðja eyru vor með. Auðvitað með ví að láta læknast á dýrustu daggjöldum sem til eru, eins og til dæmis daggjöldum Landspítalans eða á Mayo Clinic í USA. Aðeins það er nógu gott fyrir okkur sem "eigum aðeins það besta skilið í heilbrigðisþjónustu". Að læknast á hálfum daggjöldum hjá aulalæknum úti á landi í einhverju "smásjúkrahúsi"!

 

Nei, takk, ég og mínir sjúkdómar eigum betra skilið!

 

Forgangsröðun

 

Sú dapra staðreynd að sjúklingar eru lifibrauð bæði lækna manna og tanna, má ekki koma í veg fyrir að öllum sé ljóst að tilgangur allra lækninga er að hindra að fólk verði að sjúklingum, að snúa sjúkdómi til bata.

 

Forgangur sá sem boðaður er í blaðagreinum sem birst hafa nýlega, er að loka sjúkrahúsum úti á landi. Sá forgangur virðist m.a. vera til að auka vinnugleði starfsfólks á stóru sjúkrahúsunum (Morgunblaðið 5. september). Þótt mér séu alveg hulin þau tengsl sem þarna eru á milli, þá hljóta þau að vera til. Ég hef þó hvergi séð að skortur á vinnugleði standi sjúkrahúsum á landsbyggðinni fyrir þrifum. Þar eru önnur vandamál. Einfaldara væri að auka vinnugleði starfsfólks stóru sjúkrahúsanna með því að senda starfsfólkið til vinnu á litlu vinalegu, persónulegu sjúkrahúsi úti á landi þar sem lækningar snúast ekki eingöngu um dýra og fína tækni, heldur um einfaldar lækninga- aðgerðir,sem samt skipta okkur sjúklingana miklu. Sé svo þetta hjal um forgangsröðun krufið, þá væri líklega einfaldast að leggja niður Tryggingastofnun ríkisins. Hinn sovézki ríkiskapítalismi, sem ráðandi er í rekstri sjúkrahúsa hér, eins og segir í grein um þessi mál í Morgunblaðinu 5. setember sl., er einmitt fæddur og uppalinn í þeirri stofnun. Næst væri að leggja niður hið undarlega embætti landlæknis, því það embætti lýsir því ítrekað yfir (Morgunblaðið 1. september) að ekkert sé gert með skoðanir þess embættis á rekstri heilbrigðiskerfisins. Og hvað höfum við að gera með fjárfrekt apparat sem enginn tekur mark á?

 

Að lokum

 

Vandi heilbrigðiskerfisins á Íslandi er mikill. Vandinn er alvarlegur. Okkur ber að leysa vandann áður en hann verður að meinsemd. Því miður tel ég að viðbrögð við boðuðum aðgerðum í heilbrigðiskerfinu séu fyrsti vottur þess að ekki eigi að kryfja vandann til að greina hann rétt. Enn einu sinni kemur manni til hugar að hér sé aðeins verið að berjast um síðustu leifar íslenskrar velferðar, og sá sem ekki hirði og heimti sem mest, verði skilinn eftir í verstöðinni, berskjaldaður. Og hver hefur þá áhuga á vanda sjúklinga eða velferð þjóðar? Þeir sem starfa að lækningum verða svo að venja sig af því að skjóta sér á bak við sjúklinga sína í baráttunni um brauðið. Það er styrkur heilbrigðar heilbrigðisþjónustu.

 

SIGURJÓN BENEDIKTSSON,

 

tannlæknir, Húsavík.


Höfundur

Sigurjón Benediktsson
Sigurjón  Benediktsson

Ég er fyrrverandi tannlæknir á Húsavík til 37 ára, fyrrverandikennari við Tannlæknadeild Háskólans í Tromsö. Starfa nú sem óhaður tannlæknir á Íslandi. Er ekki í framboði. Netfangið mitt er: skefill@gmail.com

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 9
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 9
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband