Leita í fréttum mbl.is

Í minningu tannlæknatrygginga - mbl 19.04.1994

Þriðjudaginn 19. apríl, 1994 - Aðsent efni Í minningu tannlæknatrygginga Sigurjón Benediktsson "Hvers vegna í ósköpunum var  

Í minningu tannlæknatrygginga Sigurjón Benediktsson "Hvers vegna í ósköpunum var t.d. samningum ekki sagt upp við þá tannlækna sem greinilega misnotuðu tryggingakerfið?" Móðir hringir í mig og biður um viðtal. Vandamál hennar er að hún á tvö börn sem fara til tannlæknis. Börnin eru ekkert vandamál. Þau eru indæl og vel gerð. Vandamálið er ég, tannlæknirinn. Ég skrifaði heim með börnunum að þau þyrftu að fara í tannréttingu. Ég skrifa slíka seðla iðulega og hef gert undanfarin ár. Móðirin tjáir mér að hún hafi hlýtt ábendingu minni og farið til tannréttingasérfræðings og nú þurfi hún að velja. Annað barnið geti farið í tannréttingu en hitt verði að sleppa því. Kostnaðurinn sem henni var gefinn upp var tvö til þrjúhundruð þúsund krónur á hvort barn. Hún og maður hennar hafi 200.000 krónur í laun sameiginlega á mánuði og þau eigi annað barn til. Dæmið gangi ekki upp. Ég sem tannlæknir verði að segja henni hvort barnið hafi meiri þörf fyrir tannréttingu.

 

Kerfið hrynur

 

Þetta atvik átti sér stað fyrir um það bil einu ári og er að verða fastur liður í mínu starfi. Frekar er það ókræsileg iðja að dæma í slíkum tilfellum. Og ég fór að hugleiða: Hvers vegna? Hvað fór úrskeiðis? Hvað kom eiginlega fyrir?

 

Tannlæknatryggingar voru settar hér í gang fyrir tuttugu árum. Enginn hafði rænu á að kanna áður tannheilsu þjóðarinnar, svo rennt var blint í sjóinn hvað ætti að gera, og hvernig. Stjórnmála- og embættismenn héldu að því meiri peningum sem ausið væri í kerfið, því betri væri árangurinn. Tékkinn hjá Tryggingastofnun var óútfylltur og það var eins og það væri sjálfsagt að tannlæknakostnaðurinn hækkaði og hækkaði. Enginn hafði áhuga á árangri eða stefnu. Enginn horfði gagnrýnum augum á hvað væri að gerast. TR óx og bólgnaði, lækningarnar urðu aukaatriði. Og þetta endaði með ósköpum. Tékkinn óútfyllti reyndist innistæðulaus og var raunar búinn að vera það lengi. Kerfið hrundi.

 

Nú er svo komið að margir treysta sér ekki til að greiða þau 25% sem sjúklingar eiga að greiða fyrir tannlæknaþjónustu tryggðra eintaklinga á aldrinum 0 til 16 ára. Við erum að súpa seyðið af margra ára rugli og sóun í tannlækningatryggingum og afleiðingin er sú að sá árangur sem kostaði alla þessa fjármuni, tuttugu milljarða á tuttugu árum, er að renna út í sandinn.

 

Ekkert eftirlit Tryggingastofnunar ríkisins

 

Allan tímann hefur kerfið verið eftirlitslítið eða alveg laust við slíka hnýsni. Rjóminn af kerfispeningunum hefur runnið viðstöðulítið til hóps tannlækna í skjóli einhverrar sérkunnáttu. Enginn virðist hafa gert sér grein fyrir í hvað megnið af peningunum raunverulega fór. Tryggingastofnun ríkisins gat ekki einu sinni vitað hverjum var greitt hvað, fyrstu nítján ár þessa kerfis, hvað þá að eftirlitsskyldu hafi verið fullnægt. Hvers vegna í ósköpunum var t.d. samningum ekki sagt upp við þá tannlækna sem greinilega misnotuðu tryggingakerfið?

 

Sérfræðingar: Sjöfaldar tekjur

 

Fyrir skömmu barst mér til eyrna að nú væri loksins til listi þar sem tannlæknum væri raðað eftir því hversu háa reikninga þeir hefðu sent TR á tólf mánaða tímabili. Vongóður um hátt sæti á listanum (ég sinni um það bil 400 tryggingaþegum árlega) aflaði mér upplýsinga um þennan lista. En undrun mín varð mikil. Í ljós kom að ég var í 32. sæti listans með rúmlega fimm milljóna króna reikninga til TR fyrir vinnu mína (35%) og efni og rekstur (65%). Sá hæsti á listanum var með þrjátíu og tveggja milljóna króna reikninga til TR, sá næsti með 30.000.000 og sá þriðji með 20 milljóna króna reikning. Engin ástæða er til að ætla að þetta sé eitthvað nýtt, svona hefur þetta verið frá árinu 1974.

 

Vitað er að sérfræðingum er heimilt að taka 2832% hærri greiðslur fyrir sín verk en almennur tannlæknir. Það sem undrar mig er sú staðreynd að u.þ.b. 30% álag á taxta gefi vissum hópi tannlækna sjöfaldar tekjur venjulegs tannlæknis! Eða 700% hærri!! Er furða að eitthvað láti undan?

 

Það er leitt að innan lítillar stéttar eins og tannlæknastéttarinnar skuli hafa þrifist þvílíkt rugl og dómgreindarleysi í tuttugu ár. Á hinn bóginn er getuleysi Tryggingastofnunar ámælisvert. Þar virðist fagmennska vera óþekkt hugtak.

 

Ekki er ég með þessu að öfundast út í sérfræðinga, starfsbræður mína. Ég vil að þeim vegni sem best. Ég hef raunar sérmenntun á hinu fræðilega sviði tannlækninga sjálfur svo ég veit nákvæmlega hvað býr að baki sérmenntunar.

 

Að lokum

 

Að sjá árangur starfs síns og svita verða að engu er ömurlegt hlutskipti tannlækna í dag. TR og ráðuneyti heilbrigðismála bera ábyrgð á glórulausri nýtingu fjármuna til tannlækninga á Íslandi í tuttugu ár. Þessar opinberu stofnanir eru ekki starfi sínu vaxnar. Þær vilja fúsk og fúskið er þeirra. Já, ömurlegur er minnisvarði tuttugu ára tannlæknatrygginga á Íslandi.

 

Höfundur er tannlæknir á Húsavík.

 

Sigurjón Benediktsson


Höfundur

Sigurjón Benediktsson
Sigurjón  Benediktsson

Ég er fyrrverandi tannlæknir á Húsavík til 37 ára, fyrrverandikennari við Tannlæknadeild Háskólans í Tromsö. Starfa nú sem óhaður tannlæknir á Íslandi. Er ekki í framboði. Netfangið mitt er: skefill@gmail.com

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 9
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 9
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband