Leita í fréttum mbl.is

Gagnagrunnur - mbl 28.12.2000

Fimmtudaginn 28. desember, 2000 - Aðsent efni GagnagrunnurHver erfir hvern? Forsjárhyggja góðlæknanna, segir Sigurjón Benediktsson, er byggð á allt öðru en umhyggju fyrir almenningi og náungakærleik. 

           

 

Sigurjón Benediktsson

 

ÞAÐ er fagnaðarefni þegar framtak á sviði viðskipta, tækni og vísinda nær jafnmiklum hljómgrunni og framlag Íslenskrar erfðagreiningar gerir hjá Íslendingum. Það er svo einstakt, að vert er að skoða, hvort eitthvert annað fyrirbæri á sviði framfara hafi náð slíkum árangri.

 

Svo er ekki.

 

Eimskipafélag Íslands er líklega það fyrirtæki sem kemst næst ÍE. Var löngum kallað "óskabarn þjóðarinnar", áður en þær frænkur, öfund, græðgi og illgirni, komu til skjalanna. Viðskiptaumhverfi þess félags hefur að sjálfsögðu breyst, og samkeppni mætti vera meiri, en enginn hefur tapað á því, til lengdar, að eiga hlutabréf í því félagi.

 

Eins má segja, að þeir einstaklingar sem í mestum hávegum eru hafðir hjá þjóðinni séu læknar, góðir læknar. Einhverjir hafa að vísu glatað heilsu sinni á viðskiptum við lækna, en meginþorri fólks stendur í þakkarskuld við lækna sína, og sér ekki eftir hvað þeir fá fyrir sinn snúð.

 

Allir þessir aðilar gera út á velvild almennings, og komast þannig að því, sem stendur hjarta þjóðarinnar næst. Pyngju hennar.

 

Áhyggjur nokkurra góðlækna

Vart var blekið þornað af undirskriftum á merkum samningi ÍE við níu heilbrigðisstofnanir þegar nokkrir góðlæknar túlkuðu samninginn á sinn hátt. Sinn neikvæða hátt. Áhyggjur góðlæknanna af samstarfi sjúklinga og ÍE, með milligöngu lækna, eru auðvitað óþarfar. Skráning heilsufarsupplýsinga er byggð á fræðilegum skoðunum, rannsóknum og viðtölum sem hlíta lögum og reglum. Það heitir fagmennska. Og þar er hvorki rými fyrir óvissu né óvild.

 

Nokkrir góðlæknar hætta varla að lækna og líkna vegna þess eins, að þeim hugnast ekki þessir samningar. Hér er um samning að ræða milli aðila, sem eiga mikið undir góðri samvinnu og eðlilegu samstarfi í heilbrigðismálum. Þessir samningar hagga í engu góðum atvinnu- og afkomumöguleikum góðra og virtra lækna, en geta vissulega þrengt stöðu sérhagsmuna og sérgæsku.

 

Undirskrift samninga heilbrigðisstofnana við ÍE markar þvílík tímamót, að vert væri að gera þeim góð skil, betri en sérkennilegum athugasemdum nokkurra góðlækna.

 

Verum sérvitrir

Það er eðlilegt og heilbrigt að hafa skoðanir á hlutunum. Það er nauðsynlegt að einhverjir hafi dug í sér til að vera "öðruvísi".

 

Sérviska manna er þó því aðeins skemmtileg og verð athygli, að hún bitni ekki á öðrum. Forsjárhyggja góðlæknanna er byggð á allt öðru en umhyggju fyrir almenningi og náungakærleik. Íslendingar eru vonandi ekki farnir að dekra eiginhagsmuni kverúlanta og dýrka almenna kvörtunarsýki fram yfir dugnað og framsýni.

 

Vilji menn finna sérvisku sinni útrás bendi ég á "Banakringluna", sem hefur það eitt á stefnuskrá sinni að fara ekki í stórmarkaði, svo aðrir sjái til. Sá félagsskapur skaðar engan, ekki er reynt að hafa áhrif á hvað aðrir gera, og engum kemur við hvort einhverjir fari eða geri eitt frekar en annað.

 

En um ánægju þess, að beita sjálfan sig sjálfsaga af þessu tagi, get ég vitnað.

 

Það er yndislegt.

 

Hættum svo að hafa eilífar áhyggjur af erfðum okkar og arfi. Komandi kynslóðir munu hafa þetta á sinn hátt, hvernig sem við hömumst.

 

Höfundur er tannlæknir á Húsavík.


Höfundur

Sigurjón Benediktsson
Sigurjón  Benediktsson

Ég er fyrrverandi tannlæknir á Húsavík til 37 ára, fyrrverandikennari við Tannlæknadeild Háskólans í Tromsö. Starfa nú sem óhaður tannlæknir á Íslandi. Er ekki í framboði. Netfangið mitt er: skefill@gmail.com

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 14
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband