Morgunblaðið
Sunnudaginn 2. júlí, 1995 - Sunnudagsblað ÚR BORG Í SVEIT Hjónin Snædís Gunnlaugsdóttir og ÚR BORG Í SVEIT Hjónin Snædís Gunnlaugsdóttir og Sigurjón Benediktsson hafa komið sér myndarlega fyrir í Kaldbak, sem er rétt sunnan við Húsavík. Fyrir utan óbilandi landgræðsluáhuga hafa þau látið sig pólitík varða og komið nálægt flestum stjórnmálahreyfingum að undanskilinni framsóknarmennsku. SÚR BORG Í SVEIT Hjónin Snædís Gunnlaugsdóttir og Sigurjón Benediktsson hafa komið sér myndarlega fyrir í Kaldbak, sem er rétt sunnan við Húsavík. Fyrir utan óbilandi landgræðsluáhuga hafa þau látið sig pólitík varða og komið nálægt flestum stjórnmálahreyfingum að undanskilinni framsóknarmennsku. Þau segjast þó aldrei hafa orðið vitni að annarri eins pólitík og viðgengist hefur í bæjarstjórn Húsavíkur að undanförnu. Jóhanna Ingvarsdóttir heimsótti húsráðendur í KaldbakÞau eru bæði borgarbörn og uppgötvuðu það ekki fyrr en eftir sumarvinnu á háskólaárunum austur á Héraði að þau höfðu alla tíð búið á röngum stað á landinu. Við héldum einfaldlega að ekkert væri til nema rok og rigning, eins og hún gerist verst sunnanlands, svo við ákváðum að á Egilsstöðum myndum við búa að afloknu námi," segja þau Snædís Gunnlaugsdóttir og Sigurjón Benediktsson, en svo fór að haustið 1977 fluttust þau til Húsavíkur þar sem Héraðsbúa vantaði engan tannlækni. Snædís er lögfræðingur að mennt og starfar sem sýslufulltrúi á Húsavík. Sigurjón er aftur á móti annar tveggja starfandi tannlækna á Húsavík og var það að heita má að undirlagi Stefáns Haraldssonar, hins tannlæknisins í bænum, sem jafnframt er skólabróðir úr tannlæknadeildinni, að Húsavík varð fyrir valinu. Hrikaleg aðkoma Þau fóru til Húsavíkur í skoðunarferð með því augnamiði að flytjast þangað, en leist einhvern veginn ekki á neinn íverustað. Í ofanálag hafði Sigurjóni nokkru áður áskotnast tveir hestar, annan brjálæðing, sem fyrri eigandi hafði gefist upp á. Og auðvitað vildu þau geta hýst hrossin sem tilheyrðu orðið fjölskyldunni. "Þegar Stefán sá að við vorum að verða úrkula vonar datt honum allt í einu Kaldbakur í hug, þar sem að enn voru uppistandandi útihús, sem nýta mætti í það minnsta undir hrossin. Að öðru leyti var aðkoman hrikaleg í einu orði sagt. Hér hafði ekki verið búið í einhver ár og allt var í niðurníðslu. Hitaveiturör í íbúðarhúsinu hafði sprungið með þeim afleiðingum að veggir, gólf og loft voru öll illa bólgin. Hver einasti gluggi í húsinu var brotinn, rignt hafði inn, fúkkalyktin og músaskíturinn um allt og naktir melarnir prýddu nánasta umhverfi. En svo skemmtilega vildi til að þetta heillaði okkur strax upp úr skónum." Tíu þúsund trjáplöntur Húsakostur og allt umhverfi ber þess vott að tekið hefur verið til hendinni svo um munar, ef marka má ljósmyndir frá fyrri tíð. Íbúðarhúsið hefur verið stækkað um meira en helming og búið er að planta um tíu þúsund trjáplöntum á stóru svæði, jafnt á lóðinni sem utan hennar, upp um hóla og hæðir, niður í lautir og hvamma. Sérkennileg náttúrulistaverk, gerð úr hraungrýti úr malarnámu, prýða sömuleiðis umhverfið. Hugmyndafræðingurinn að baki þeirri smíð er faðir Snædísar, dr. Gunnlaugur Þórðarson, sem að sögn kemur oft á sumrin til þess að planta og fegra umhverfið í sveitinni. Þó mikið hafi verið gert, eru verkefnin, sem eftir eru, endalaus. Það tekur líklega einar tvær kynslóðir að klára þetta, en sem stendur erum við að innrétta súrheysturninn sem gestaherbergi," segir Snædís, enda gestagangur mikill í Kaldbak og stundum hafa heilu tjaldborgirnar verið reistar á túninu. Húsráðendur segja gestaganginn síður en svo íþyngjandi, heldur sé gott til þess að vita að vinir og kunningjar haldi tryggðinni við með heimsóknum. Góðir sérvitringar Aðeins tveir kílómetrar skilja sveitalífið frá bæjarlífinu. Að því leytinu til segjst þau búa við afar óvenjulegar aðstæður, þar sem þau búi úti í sveit, en séu nánast því ofan í bæ. "Það er ekki hægt að hugsa sér það betra. Við vitum ekkert hvernig það er að búa á Húsavík, en erum samt ekki viss um að við værum hér ennþá ef við nytum ekki þessara forréttinda. Þessi staður heldur alveg rosalega í okkur." Fyrsta árið leigðu þau af Húsavíkurbæ, en þar sem þau fóru fljótlega að taka til, framkvæma og síðast en ekki síst planta í kringum sig, æxluðust málin þannig að bærinn bauð upp á kaup, sem þau sjá svo sannarlega ekki eftir í dag. Þau segja jafnframt að á Húsavík búi yfir höfuð gott fólk. Það er alltaf gaman að sérvitringum, enda er ég mikill sérvitringur sjálfur," segir Sigurjón. Hjónin í Kaldbak eiga þrjú börn, þau Sylgju Dögg, 21 árs, Hörpu Fönn, 13 ára og Benedikt Þorra, 11 ára. Fyrir utan þau tilheyra fjölskyldunni ein níu hross, hundurinn Tító og kötturinn Músa. Hestaferð í fríinu Áhugamál þeirra Kaldbakshjóna eru af ýmsum toga. Þau fara á gönguskíði, spila brids, tefla og fljúga, enda er Sigurjón með flugpróf og Snædís tekur virkan þátt í starfsemi Leikfélags Húsavíkur. Fullyrða má þó að skógrækt og landgræðsla eigi hug þeirra að miklu leyti. Hestamennska skipar einnig stóran sess og hafa þau nú skipulagt heilmikla sumarreið, sem hlotið hefur yfirskriftina Hestaferð húshrossa". Sigurjón leggur ríka áherslu á að hann sé aðeins í hestamennsku til að hafa gaman af. Ræktun gæðinga eða tamningu hrossa eigi hann ekkert við. Áætlað er að ferðin taki tíu daga. Ekki liggur fyrir endanlegur fjöldi þátttakenda, því stöðugt er að bætast í hópinn. Skv. þaulskipulagðri dagskrá, sem útbúin hefur verið við eldhúsborðið í Kaldbak og er upp á einar ellefu blaðsíður, verður lagt í'ann 27. júlí frá höfuðbólinu Kaldbak og riðið alla leið til Hornafjarðar yfir Lónsöræfin. Sem liður í undirbúningi ferðarinnar hefur Sigurjón flogið yfir hvern einasta punkt á leiðinni til að kanna staðhætti, mælt vegalengdir og skipt þeim niður á daga. Þannig telst honum til að samtals verði farnir 304 km. Meðalvegalengd á dag sé 33,77 km miðað við 5,24 hraða hrossanna á klst. Þá leggur skipuleggjandi ferðarinnar til að hross verði að vera heilbrigð og laus við geðveiki og hann ítrekar að farsælast sé að það sama gildi um menn. Rækta garðinn sinn Skógræktar- og landgræðsluáhuginn hefur blundað í þeim frá ómuna tíð, eins og það er orðað, enda eru þau sammála um að sá hugur gefi lífinu lit. Eftir að Snædís kynntist Sigurjóni í MR fór hún að fara með kærastann í sumarbústað foreldra sinna, þeirra Gunnlaugs og Herdísar Þorvaldsdóttur, sem byggt höfðu bústað sinn upp við Rauðhóla í kringum 1960 og unnið þar mikið skógræktarstarf. Sigurjón segist hafa heillast mjög af því starfi, sem þarna hafði verið unnið, enda ótrúlegt hvað skógurinn var orðinn mikill á tiltölulega skömmum tíma. Það er nefnilega allt of algengt að fólk hugsi með sér að það taki því ekki að byrja, því það lifi það ekki að sjá dýrðina. Þetta verði ekki orðið að neinu þegar komi að kveðjustund við þennan heim. En það er öðru nær. Þetta gerist miklu hraðar en menn átta sig á. Og nú bíð ég bara eftir því að verða gamall maður. Ég hlakka svo til, því þá verða trén mín orðin svo stór. Þá verður sko gaman að lifa." Þau segjast gera sér skógræktina eins ódýra og mögulegt sé, hafi komið sér upp vísi að gróðrarstöð, lesi og prófi sig áfram. Þetta var svakaleg barátta fyrstu árin og afföll mikil. En núna, eftir að gróðurinn hefur náð sér á strik, erum við farin að sjá árangur. Þegar við vorum að byrja að planta árið 1977 þekktist t.d. Alaskavíðir ekki, en um leið og hann fór að fást var hann fljótur að vaxa og veita öðrum tegundum skjól. Það má segja að hann hafi gjörbreytt ræktunarskilyrðum hér." Aðspurð um uppáhaldstrjátegundir nefna þau Alaskavíði, birki og greni. Maður gerir ekki upp á milli barnanna sinna," bætir húsbóndinn við. Húsavíkurland friðað Sigurjón var hvatamaður að stofnun Húsgulls, sem er skammstöfun fyrir: Húsvísk samtök um gróðurvernd, umhverfi, landgræðslu og landvernd. Samtök þessi voru stofnuð fyrir einum fimm árum og eru eins konar frjáls sjálfboðaliðasamtök, hvorki með félagaskrá né önnur formlegheit. Þetta er bara eitt af þessum ánægjulegu furðufyrirbærum, sem orðið hafa til og á fundi mætir fólk með hugmyndir og fær aðra til að vinna með sér. Nú orðið finnst öllum orðið sjálfsagt að gróðursettar séu tugir og hundruð þúsunda plantna á hverju sumri. Við erum ekki að rækta upp tiltekna skógræktarreiti, heldur erum við einfaldlega að klæða Húsavíkurlandið til þess að gera það skemmtilegt." Aðalárangur afrakstursins felst í því að nú hefur allt Húsavíkurlandið verið friðað, búið er að skipuleggja beit fyrir hobbý-bændur og gróðursettar hafa verið yfir milljón trjáplöntur í landinu. Ennþá er þó til staðar mikil eyðimörk, sem meiningin er að ráðast gegn. "Í upphafi var þetta mikil barátta og skiptar skoðanir um ágæti þessa, einfaldlega vegna þess að íhaldssemi er hluti af eðli Húsvíkinga. Óbreytt ástand er, í þeirra augum, svo ofboðslega gott og breytinga er ekki þörf. Þær eru hreint og beint óæskilegar, en ég efast stórlega um að nokkur maður sé á móti þessu þjóðþrifaverkefni lengur." Í minnihluta Eitt er það áhugamál, sem enn hefur ekki verið minnst á, en greinilegt er að þeim Snædísi og Sigurjóni hitnar í hamsi þegar við förum að ræða bæjarpólitíkina, en Sigurjón gerðist sjálfstæðismaður fyrir síðustu bæjarstjórnarkosningar og skipaði efsta sæti listans. Sjálfstæðismenn komu tveimur mönnum inn, en sitja nú í minnihluta ásamt einum alþýðuflokksmanni. Meirihluta í bæjarstjórn skipa þrír fulltrúar alþýðubandalags og jafnmargir fulltrúar framsóknarflokks. Sigurjón segist alltaf hafa verið mjög pólitískt þenkjandi, enda hafi stjórnmál mikið verið rædd á hans æskuheimili. "Faðir minn, Benedikt Sigurjónsson hæstaréttardómari, sem nú er látinn, var mikill framsóknarmaður og á þeim tíma gekk maður hinar ýmsu göngur sem vinstri maður og tók þátt í því starfi af eldmóð. En síðan hafa mörg vötn runnið til sjávar og við höfum verið nokkuð lengi að staðsetja okkur í hinu pólitíska litrófi, enda búin að ganga götuna allt frá alþýðubandalagi yfir til sjálfstæðisflokks með viðkomu í sérframboðum, á landsvísu jafnt sem í heimabyggð." Út af sakramentinu Þegar Kaldbakshjónin fluttu norður 1977 þóttu þau mjög svo vinstrisinnuð, enda bæði flokksbundin í Alþýðubandalaginu. "Ég var hinsvegar tiltölulega fljótur að sjá í gegnum það, enda er Alþýðubandalagið á Húsavík ekkert annað en hið sanna íhald. Bæjarpólitíkin snerist ekki um neitt nema nokkrar persónur, fjölskyldur, ættir og bú. Þetta var ekki sósíalismi fyrir fimm aura. Maður kynntist því í nálægðinni," segir Sigurjón, sem fljótt sagði skilið við sína gömlu barnatrú og kom ekki nálægt pólitík í nokkur ár. Aðspurður um hvort þessi afstaða hans hafi skilið eftir sig sárindi, svarar hann: Ekki nema að því leytinu til að alþýðubandalagsmenn geta fyrirgefið fólki fyrir það að hafa aðrar stjórnmálaskoðanir, en þeir eiga bágt með að fyrirgefa því fólki, sem verið hefur hluti af hópnum en snúið sér annað. Slíkir menn eru settir út af sakramentinu." Snædís hélt á hinn bóginn áfram um tíma og var meira að segja á lista hjá alþýðubandalaginu fyrir bæjarstjórnarkosningarnar 1978. En svo kom Bandalag jafnaðarmanna til sögunnar og ég bauð mig fram, hringdi í Vilmund Gylfason, sem var, að mínu mati, einn framsýnasti maður, sem þjóðin hefur alið. Hann var strax til í að halda fund með okkur, sem er einn skemmtilegasti pólitíski fundur sem ég hef upplifað. Vilmundur var ótrúlegur. Hann boðaði algjöra kerfisbreytingu og þorði að segja meiningu sína, þó hún væri þvert á ríkjandi viðhorf," segir Snædís. Afturhaldshugsjónir Fyrir bæjarstjórnarkosningar 1986 þótti nokkrum ungum mönnum heimapólitíkin orðin heldur of stöðnuð og að áeggjan Sigurjóns ákváðu þeir að fara fram með sérframboð undir heitinu Víkverji. Sjálfur tók ég annað sætið, en því miður komum við aðeins einum manni að. Tveimur dögum fyrir kosningar var birt í bænum skoðanakönnun þess efnis að við værum með tvo menn örugga og vel það. Á þeim tímapunkti vissi ég að það væri dauðadómur yfir okkur vegna þess að könnunin grjótherti andstæðingana í kosningabaráttunni. Þó held ég að á þessum tíma hafi ég stuðað marga með þeim afleiðingum að enn er ekki gróið um heilt. Það er þessi ósvífni að leyfa sér að koma inn í þessu helgu vé með nýjar hugsjónir." Fyrir síðustu bæjarstjórnarkosningar gerðust hjónin í Kaldbak flokksbundin í sjálfstæðisflokknum. Það má eiginlega segja að störf mín að umhverfismálum hafi sannfært mig um að afturhaldshugsjónir framsóknar- og alþýðubandalagsmanna stæðu í veginum fyrir framþróun. Á þeim bæjum er frekar horft til fortíðar en framtíðar. Halldór Blöndal, núverandi samgönguráðherra og fyrrum landbúnaðarráðherra, sem hefur verið núið því um nasir að vera í þessum títtnefnda framsóknararmi, þorði t.d. að takast á við ný sjónarmið í landbúnaði og landgræðslu. Hann þorði að koma og hlusta á okkur og gerði eitthvað með það sem við skógræktaráhugamenn vorum að boða, þó svo að bændur stæðu í fyrstu brjálaðir á móti. Það kom mér líka þægilega á óvart hversu auðvelt það virðist vera að koma nýr inn í svo stóra stjórnmálahreyfingu. Ég hélt satt best að segja að sjálfstæðisflokkurinn væri, eins og einhver orðaði það svo vel, stór eðla með heilann í halanum. Ég hef kynnst mörgu góðu fólki í sjálfstæðisflokknum sem er ekki uppfullt af þessum kreddum, sem eru svo áberandi annars staðar. Þetta er einfaldlega miklu víðsýnna fólk. Það er mín þröngsýni að hafa ekki uppgötvað þetta fyrr," segir Sigurjón. Snædís segir að þau Sigurjón hafi oftast fylgst að í pólitíkinni þó þau hafi í sjálfu sér getað lifað sjálfstæðu pólitísku lífi innan heimilis og utan án mikilla afskipta frá hendi hvors annars. Já, það er nokkuð rétt, en þú gleymir því, Snædís mín, að segja blaðakonunni frá einu framboði, sem þú tókst þátt í, en vilt ekki tala mikið um í dag. Þú varst nefnilega í framboði fyrir Þjóðarflokkinn á sínum tíma, einum mesta framsóknarflokki í heimi. Ég studdi þig ekki þá og fór aldrei með þér á fundi," segir Sigurjón með stríðnisblik í augunum. Rétt er það," svarar eiginkonan sallaróleg. Það var fyrir einum átta árum og á fölskum forsendum. Ég hélt að ég væri að starfa með umhverfisverndarsinnum, en stuttu eftir kosningar vaknaði ég upp af vondum draumi og hætti allsnarlega afskiptum mínum af þessari hreyfingu." Mörg ógæfusporin Þó svo að Sigurjón sé af góðum og gegnum" framsóknarættum hefur hann aldrei komið nálægt framsóknarmennsku, enda leynir hann ekki þeirri skoðun sinni að framsóknarflokkurinn sé eitt mesta afturhaldsafl, sem fyrirfinnst í íslensku þjóðfélagi. Hann er sömuleiðis þeirrar skoðunar að það hafi verið ógæfuspor fyrir sjálfstæðisflokkinn að fara í ríkisstjórnarsamstarf með framsóknarflokknum að afloknum síðustu Alþingiskosningum, enda segist hann hafa lýst þeirri skoðun sinni tæpitungulaust þegar kom að flokkráðsfundi að samþykkja ríkisstjórnina. Eins og alkunna er, var mikill hiti í húsvískum þegar ákveðið var að auka hlutafé og selja hlut bæjarins í helsta atvinnufyrirtæki Húsvíkinga, Fiskiðjusamlagi Húsavíkur, á dögunum og heyrðist þá svo um munaði í Kaldbaksbóndanum, sem fann þeim vinnubrögðum, sem viðhöfð voru í málinu, allt til foráttu, en það voru stóru sölusamtökin tvö, Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og Íslenskar sjávarafurðir, sem börðust um bitann, eins og rakið var ítarlega hér í blaðinu á sínum tíma. Tækifærinu sleppt Málalyktir urðu þær nú á vormánuðum að meirihluti bæjarstjórnar Húsavíkur ákvað að taka tilboði ÍS, sem hljóðaði upp á 75 milljónir í endanlegri mynd. Eignahlutur bæjarins eftir kaupin fer því úr 54% í 40% og þar með missir bærinn lykilaðstöðu, ÍS verður með um 34% hlut og kaupfélagið með um 17%. Í ljósi þessara niðurstaðna segist Sigurjón fyrst og fremst hafa áhyggjur af hag bæjarins og þar með bæjarbúa á komandi árum, því ljóst sé að engra breytinga sé að vænta. Gamla góða stöðnunin verði eftir sem áður við lýði, sem hljóti að vera óskastaða þeirra, sem um valdataumana halda. Ljóst sé að óverulegt nýtt fjármagn komi inn í bæjarfélagið, atvinnulífinu til heilla, sem hljóti þó að hafa verið markmið allra hugsandi manna með öllu þessu brambolti. Tækifærinu var sleppt og nú er ekkert til að selja lengur. Það vill enginn kaupa 40% hlut bæjarins gegn því að vera í minnihlutaaðstöðu. Það segir sig sjálft. Okkur veitti ekki af því nýja fjármagni inn í bæjarfélagið sem bauðst með SH-leiðinni, enda er skuldastaða bæjarins ekki glæsileg sem stendur, þó vanskil séu reyndar engin ennþá. Húsavíkurbær, með um 2.500 íbúa, skuldar 486 milljónir kr., en heildartekjur á síðasta ári námu 434 milljónum og um 70% af tekjum fara í beinan rekstur. Skuldirnar eru m.ö.o. orðnar hærri en tekjurnar, sem talin eru hættumörk. Fyrirsjáanlegt er að skuldir bæjarfélagsins munu vaxa enn á næstu árum, því fyrir liggur að taka þurfi að láni 300 milljónir til viðbótar á næstu þremur árum fyrir óarðbærum framkvæmdum." Löglegt en siðlaust Mínar skoðanir urðu undir í bæjarstjórn og það er bara staðreynd, sem ég verð að sætta mig við. Maður er ekki alltaf sigurvegari í pólitík. Í stuttu máli átti sér stað viðskiptaleg hryllingssaga þar sem að vegið var að rótum lýðræðisins í þeirri verstu mynd, sem hugsast getur. Flokks- og einkahagsmunir framsóknar- og alþýðubandalagsmanna réðu ferðinni og það mátti ekki fá óvilhalla aðila til þess að meta tilboðin vegna þess að önnur tilboð, en það sem kom frá ÍS, gátu verið það góð að ekki væri unnt að hafna þeim. Óneitanlega spyr maður sjálfan sig hvort fólki finnist málsmeðferðin bæði sjálfsögð og eðlileg í ljósi þess að verið er að ráðskast með almannahagsmuni bæjarbúa. Svo virðist sem hægt sé að sniðganga allar almennar vinnureglur ef hagsmunir sumra eru of miklir. Ég hef skoðað það sérstaklega hvort þessi vinnumáti standist lög og komist að þeirri niðurstöðu að um sé að ræða löglegt athæfi en siðlaust." Sigurjón gagnrýnir sérstaklega bæjarstjóra og meirihluta bæjarstjórnar Húsavíkur fyrir að hafa haldið minnihlutanum frá ÍS-málinu, eins og kostur hafi verið. Þar með hafi bæjarfulltrúar um 40% bæjarbúa verið sniðgengnir með öllu. "Sem dæmi get ég nefnt að minnihlutinn fékk ekki einu sinni að hafa fulltrúa í viðræðunefnd bæjarins við ÍS-hópinn og SH- mönnum var synjað um fund með bæjarstjórn. Þeir hittu aðeins bæjarstjórann að máli sem hafði ekkert með málið að gera, enda ekki pólitískt kjörinn fulltrúi, heldur aðeins framkvæmdavald, sem á að fylgja eftir þeim ákvörðunum, sem teknar eru í bæjarstjórn. Við vissum því aldrei hvað var að gerast nema í gegnum fjölmiðla. Bæjarstjórnin öll fékk aldrei að hitta þessa menn. Það var ekki fyrr en að ég, fyrir hönd minnihlutans, bað fulltrúa ÍS og fulltrúa SH um sérstakan minnihlutafund, sem haldinn var við stofuborðið í Kaldbak, að við fengum að ræða við þá. Til samanburðar var málum þannig háttað á Akureyri, þegar bæði þessi sölusamtök voru að bítast um hlut bæjarins í Útgerðarfélagi Akureyringa, að fulltrúar fyrirtækjanna funduðu með bæjarstjórninni allri allan tímann. Til þess að toppa dæmið, flutti ég tillögu um það, þegar ákveðið var að ganga að tilboði ÍS, að um staðgreiðsluviðskipti yrði að ræða, en sú tillaga var að vonum felld í bæjarstjórn allsnarlega. Það mátti ekki styggja vinina suður í Reykjavík með því að láta þá staðgreiða." Fyrirgreiðslupólitík Sigurjón segir að bæjarsjóður hafi með einum eða öðrum hætti tekið þátt í atvinnuuppbyggingu og farið flatt á ýmsu. Hinsvegar sé fyrirgreiðslupólitík bæjarstjórnar rannsóknarefni út af fyrir sig þegar kemur að útgerðarmálunum, einni helstu lífæð bæjarbúa, og í því sambandi séu til fyrsta flokks borgarar og svo annars flokks borgarar. Sem dæmi um þetta nefnir hann að Fiskiðjusamlagið, Höfði og Íshaf hafi alltaf getað hlaupið í vasa bæjarbúa á meðan að erindum frá öðrum hafi vart verið sinnt. Bærinn hefur keypt hlutabréf fyrir 140 milljónir kr. í þessum þremur fyrirtækjum, á nú inni 40 milljóna kr. lán hjá FH og 15 millj. kr. lán hjá Höfða. Auk þess stendur bærinn í ábyrgð fyrir tæpum 90 milljónum kr. hjá þessum þremur fyrirtækjum samanlagt." Framtíðarmöguleikar Þrátt fyrir þá harmsögu, eins og hann orðar það, sem á undan er gengin í viðskiptasögu Húsvíkinga, vill Sigurjón vera jákvæður þegar talið berst að framtíðarmöguleikum Húsavíkur. Hann hefur tröllatrú á ferðaþjónustunni, eins og svo margir aðrir, hringinn í kringum landið. Þeim möguleikum hefur náttúrulega ekki verið gefinn nógu mikill gaumur, en eftir svona 10-15 ár tel ég að hér verði einn fallegasti ferðamannastaður á landinu, þegar þessi milljón tré, sem gróðursett hafa verið, verða komin á legg. Við verðum að vera bjartsýn." Hann segir að endurnýjunar sé þörf í lykilstöðum bæjarfélagsins og hann lítur björtum augum til nokkurra ungra manna, sem séu að hasla sér völl og gera góða hluti. "Hinsvegar verðurðu að átta þig á því að ég get ekki nefnt nein nöfn, því ef ég hrósa einhverjum, fer sá hinn sami rakleiðis á svartan lista hjá meirihlutanum." Sigurjón tannlæknir er þekktur orðhákur. Hann vill halda eigin sannfæringu til streitu og gefst ekki upp fyrr en í fulla hnefana. Ég tel mig vera kosinn til þess, enda er ég ekki háður neinum fyrirtækjum á neinn hátt. Hinsvegar tel ég mig ekki vera neinn friðarspilli. Ég held að ég hafi sýnt það og sannað í mínu félagsmálavafstri í gegnum tíðina. Ég hef starfað í tugum félaga og ég held hreinlega að ekkert þeirra hafi geispað golunni vegna minna afskipta," segir hann og hlær miklum hrossahlátri. Hugsandi fólk Þrátt fyrir nokkur afskipti af pólitík í gegnum tíðina segjast hjónin í Kaldbak hvorugt ganga með þingmanninn í maganum. Þau hafi hinsvegar gaman af því að styðja gott fólk og vinna að góðum málefnum. Það skemmtilega við þetta er að finna til þess þegar fólk, sem ekki hefur hugsað í mörg ár, fer allt í einu að hugsa. Það þarf ekkert endilega að vera mér sammála, enda er ég sjálfur ekki alltaf sammála síðasta ræðumanni. Það þarf hinsvegar að færa rök fyrir máli sínu," segir tannlæknirinn. Að lokum, saknið þið aldrei borgarlífsins?Ef við gerum það, þá drífum við okkur bara suður og komum svo aftur heim fullsödd af menningu og borgarlífi. Það er ekkert flóknara en það. Við höfum svo sem prófað ýmislegt, m.a. farið til milljónaborgarinnar Birmingham í Alabama í Bandaríkjunum tvisvar síðan við fluttum norður og dvalið þar eitt ár í senn til að hlaða batteríin. Við höfum ekki tekið neina ákvörðun um það hvort við verðum hér alla okkar hundstíð. Það svo sem hvarflaði að okkur í öllum snjónum í vetur að yfirgefa staðinn, en við gleymdum auðvitað slíkum vangaveltum um leið og birti og gróðurinn fór að vakna."
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | 5.11.2006 | 22:16 | Facebook
Síður
- Úr borg í sveit - mbl 02.07.1995
- Ráðstefna um gróðurvernd og landnýtingu - mbl 14.03.1989
- Úr sálarkytru sjálfstæðismanns - mbl 23.06.2004
- Meðmælaganga til stuðnings álveri - mbl 28.08.2006
- Tannlæknafélag Íslands - formaður
- Kvalinn hvalari eða kvalari hvala? - mbl 20.03.2004
- Notum vél Flugmálastjórnar meira! - mbl 17.11.2001
- Tannlæknastjórnin - mbl 21.11.1996
- Af sprungum og skælum - mbl 20.11.1997
- Gagnagrunnur - mbl 28.12.2000
- [ Fleiri fastar síður ]
Eldri færslur
- Júlí 2024
- Mars 2024
- Október 2021
- Október 2020
- September 2020
- Mars 2020
- Nóvember 2017
- Ágúst 2014
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Nóvember 2012
- September 2012
- Júlí 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Mars 2008
- Október 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
Tenglar
Prófkjör
Úrslit
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 9
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 9
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Af mbl.is
Viðskipti
- Grallarar á bak við tilboðið
- Íslandsbanki og VÍS í samstarf
- Ríkisstarfsmenn elta vildarpunkta
- Var um tíma hætt að lítast á blikuna
- Stefnt að afgreiðslu Íslandsbankasölu á vorþingi
- Jakob Ásmundsson nýr framkvæmdastjóri DTE
- Slakt þjónustustig stofnana
- Hlutfall Marels í OMX 15 mun halda áfram að minnka
- Munurinn sýni fram á einokun
- Samdráttur í sölu kampavíns í fyrra