Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Nú er það fundaröð frambjóðenda!

Frambjóðendur hefja fundaröð um kynningu á prófkjörinu og þátttakendum á morgun föstudag. Byrjað verður í Mývatnssveit kl 17:00 föstudag að Sel-Hótel og síðan farið til Húsavíkur og fundur þar kl 20:00 á veitingahúsinu Sölku. Á laugardag verður fundað í Ljósvetningabúð fyrir Aðalddal og Þingeyjarsveit og svona heldur rútan áfram.
Sjálfur reyni ég að komast suður í smáborgina þar sem ég er með fund um lífeyrismál hja Tannlæknafélaginu og kem heim á morgun til að ná í fund inn í Mývatnssveit.
Komin er þíða og sunnanþeyr og best að far að tygja sig. Taka nokkrar kaffistofur á Húsavík áður en ég fer í flug frá Akureyri. Það er slæmt fyir mig sem stjórnmálamann að drekka ekki kaffi . Séð hef ég skugga færast yfir andlit margra húsfreyjanna þegar ég afþakka kaffi þeirra. Kaffiuppáhellingin er eins og sakramenti hjá mörgum. En allt fellur í ljúfa löð þegar ég tek til við pönnukökuát. Þær eru mitt uppáhald. En bara vatn með, takk fyrir. Dreymdi mikla sigra, heljar fagnaðarlæti og kossa margra kvenna en vaknaði við að hundurinn var að bofsa og sleikja á mér kinnina. Hvað boðar þetta eiginlega?

Og nú eru það nágrannasveitir

Eftir að haf talið hundruð kinda og nokkrar hjálmóttar kýr í gærkvöldi sofnaði ég vært og svaf til níu. Það hefur ekki gerst í háu herrans tíð. Lagði af stað í litla kosningaferð í Aðaldalinn. Var tekið með kostum og kynjum í Árbót, tókum rispu um gang mála. Þetta meðferðarheimili er orðinn stærsti vinnuveitandinn í Aðaldal. Það er svo sem ekki það sem máli skiptir, heldur að hér er verið að ná árangri. Tekist á um nokkur mál en allir skildu sáttir. Ég hélt áfram og kom við að Laugum í Reykjadal og hélt síðan upp í Mývatnssveit. Fegurðin var mikil, en stjórnmálin snúast ekki um það svo ég varð að stoppa og ræða við bóndann í Garði sem var að lesta dráttarvél til flutnings. Sagðist hann þurfa hugsa sig vel um áður en hann kysi mig. Hélt áfram um sveitina, hitti nokkra og missti af einhverjum. Merkilegt hvað hús eru flest illa sett í sveitinni. Líklega er það af því að Náttúruverndin ræður skipulagi og því fjarlægja menn ekki hús nema þau seú hrunin. Ók heim um Hólasand. Þar voru vegaframkvæmdir og hvílik samgöngubót er allur sandurinn verður lagður færum vegi. Lúpinan brosti við mér, hún vinnur sitt verk við endurheimt landgæða á 130 ferkílómetra fyrrverandi eyðimörk. Ef ég eignast góða hryssu ætla ég að skýra hana Lúpínu.

Og áfram heldur kosningaferðalagið.

Lagði land undir hjól snemma. Fór inn í Reykjahverfi sem er nú hluti
nýja sveitarfélagsins Norðurþing. Kýrnar í Víðiholti tóku mér fagnandi.
Ekki misheyrðist mér er þær bauluðu á Samfylkinguna og bauð ég Jóni
bónda að skrá þær allar í flokkinn. Þær eru flestar hjálmóttar og
eitthvað dyntóttar svo ekki fer á milli mála hverjar þær eru, og hvern
þær styðja. Ræddum um landbúnað og horfur. Íslenskur landbúnaður á sér
vissulega framtíð en ekki á einhverjum samkeppnismarkaði ríkra sænskra
bænda sem gera út landbúnað sinn í Eystrasaltslöndunum.
Hjarðsauðfjárbúskapur okkar er tímaskekkja og nauðsynlegt er að
eigendur hugsi um sínar jarðir. Eyðibyggð er ömurleg. Þvílíkur
dugnaður. Fjörutíu flokksbundnar mjókurkýr.
Fór um dali og tefldi við, næstum því fulltrúa páfa í héraðinu, séra
Þorgrím á Grenjaðarstað, vann vegna afleiks prests í erfiðu miðtafli og
þótti mér það miður. Var það engin kurteisi af mér að vinna tilvonandi
atkvæði svona og lofa ég bót og betrun næst er við teflum skák saman.
Kom við á nokkrum bæjum. Hélt svo sem leið liggur um Ljósavatnsskarð,
kom m.a. við á Stóru-Tjörn (eins og Ólafur skólastjóri vill kalla
staðinn, minnir mig) og varð lítt ágengt.
Fór til starfsbræðra minna og systra á Akureyri og endaði daginn með
heimsókn á kosningskrifstofur keppinauta minna. Skelfing var ég glaður
að þurfa ekki að opna kosningaskrifstofu en góður var allur
viðurgjörningur og mikið fjör á skrifstofunum.

Kosningaferð hin fyrri

Ferð okkar (kosningastjórans og mín) til Siglufjarðar, Ólafsfjarðar,
Dalvíkur, Árskógsstrandar og Hauganess var ekki síður ánægjuleg en
ferðin austur. Væntingar íbúa til ganganna eru miklar enda verður til
einhver skemmtilegasta hringleið norðan Alpafjalla auk atvinnutengingar
þessara staða við utanverðan Eyjafjörð. Hinir skemmtilegu miðbæir á
Ólafsfirði og Siglufirði með sínum litlu sérverslunum og fallegu húsum
eru einstakir og vonandi bera íbúar og skipulagsyfirvöld gæfu til að
halda sérkennum bæjanna.
Enn einu sinni kemur skemmtilega á óvart hversu Halldór Blöndal hefur
séð lengra en margir aðrir þegar hann dró vagn þessara gangna. Þessar
byggðir þurfa framhaldsskóla þó ekki væri út af öðru en að unglingar
verða ekki sjálfráða fyrr en við 18 ára aldur og allir sem njóta þess
að hafa framhaldsskóla í sínu byggðarlagi verða að skilja þessar óskir
íbúanna.
Eins og annarsstaðar eru það samgöngur sem breyta mestu um lífsgæði
íbúa út með Eyjafirði. Okkur var vel tekið og sérstaklega var gaman að
spila vist (ekki framsóknarvist þó) á Allanum á Sigló.

Mega stjórnmál ekki vera skemmtileg?

Nú er ég kominn í prófkjör og ætla að hafa gaman af. En það er ekki auðvelt. Ég setti auglýsingu í Austurlandið sem er hér til hliðar..Austurlandið

Brá svo við að ég fékk hringingu frá einum kjósanda í kjördæminu sem tjáði mér ábúðarfullur að framboð væri sko ekkert grín, spurði hvort mér væri nokkur alvara með framboði mínu. Þessi auglýsing væri skemmtiatriði. Væri flokkurinn kannske búinn að skipta út fálkanum fyir hreindýr? Ég svaraði að bragði að mitt framboð væri ekki grín en ég ætlaði að hafa af framboði mínu nokkra gleði og skemmtan. Bauð honum í flokkinn, við daufar undirtektir. Sagði manninum að þeir sem væru á auglýsingunni væru báðir ánægðir ef einhver hefði gaman af uppátækinu. En það væri munur á því að vera fyndinn eða hlægilegur. Eitthvað tók maðurinn það til sín. Lauk samtali okkar skömmu síðar. 

Undirbúningur prófkjörs Ég setti mér það mark að heimsækja alla þéttbýlisstaði í kjördæminu. Það hef ég nú gert og auðvitað var þetta skemmtilegt og fullt af skemmtilegu fólki hitti ég sem fannst allt í lagi að stjórnmál væru skemmtilegEkki er allt í dýrðinni, alltaf, hjá öllum. En það ætti að vera hverjum manni ljóst, að þau tækifæri sem nú gefast í kjördæminu til betra mannlífs eru einstök og stórkostleg. En kjördæmið er engin smásmíði og það sem stjórnmálamenn eiga að gera, auk þess að  reyna að vera skemmtilegir, er að vinna að bættum samgöngum. Og það ætla ég að gera.

Og stjórnmál eru skemmtileg!Þegar er ég hafði tilkynnt framboð mitt, streymdu til mín hringingar og tölvupóstar frá fólki sem var bara ánægt með að ég skyldi gefa kost á mér. Mér er það ljóst að ég er ekki allra, það breytist ekki þó prófkjör fari fram. En ég berst fyrir þeim málum er ég tek að mér. Og það ætti að vera flestum ljóst af áratuga stjórnmálaafskiptum fyrir hvað ég stend. Því leita ég stuðnings í þessu prófkjöri. Því miður fékk Örlygur Hnefill ekki brautargengi í sínu prófkjöri. Er hann þó skemmtilegur maður. Ég er til.Sigurjón Benediktssonhttp://www.sigurjonben.blog.is


Hvað gerist í prófkjörum?

Nú þegar úrslit liggja fyrir í "prófkjöri" Samfylkingarinnar vakna upp spurningar um eðli og tilgang þessarar aðferðar. Það er réttur hvers manns að vera félagi í stjórnmálaflokki og rétturinn nær einnig til þess að vera EKKI í einhverjum flokki. Hitt er svo augljóst eftir þetta ¨póstkjör", að það er ekkert sem kemur í veg fyrir að einstaklingar geti verið í mörgum stjórnmálaflokkum samtímis. Raunar er ekkert óeðlilegt við það heldur. Flokksskrár verða aldrei samkeyrðar á einn eða neinn hátt og það eina sem hægt er að gera til að koma á móts við óskir um að hafa áhrif er að öll prófkjör (ef þau eiga einhvern rétt á sér) verði opin, eða á endanlegum kjörseðli til Alþingiskosninga geti hver og einn númerað við þá frambjóðendur, þvert á lista, sem hann vill sjá á Alþingi. Þetta hefur svo sem komið fram áður t.d. hjá Vilmundi heitnum Gylfasyni.

Að lokinni ferð

Alltaf er gott að koma heim. Hlupum út til að koma öllu í skjól fyrir
fárviðrið. sem spáð er. Erum enn að en ég stalst inn í tölvuna og sá
viðbrögð við þessum skrifum. Er ekki heimurinn flatur og lítill en samt
svo stór?

Djúpivogur - vaknar snemma!

Undir söng Karla- og kvennakóra í útvarpi flestra landsmanna búum við okkur undir daginn í kosningaferð okkar um Austfirði. Það er ljóst að Egilsstaðir-Reyðarfjörður-Eskifjörður-Neskaupstaður-Fáskrúðsfjörður hljóta að verða að einu atvinnusvæði, bæði til að byggðin dafni á öllum stöðum og svo þurfa stórir vinnustaðir margar hendur. Það er einnig mikilvægt að fyrirtækin sem fyrir eru og hafa verið kjölfestan í byggðunum geti haldið áfram sinni uppbyggingu. Hér koma til göng og samgöngubætur, það er ljóst. Einnig verður að tryggja tengingu suðurfjarðanna við norðursvæðið. Þetta er tugmilljarða verkefni en til hvers ætla mennn að nota arðinn af orkunýtingunni?
Eftir að hafa ferðast hér um er ég enn sannfærðari um að samgöngur og aftur samgöngur er það sem einhver opinber stjórnvöld eiga að koma að. Flest annað getur þá þróast eðlilega í kjölfarið. Samgöngur eru einmitt forsenda menntunar, menningar og mannlífs.

Ótrúleg uppbygging - magnað mannlíf !

Nú erum við komin á Djúpavog, ætlum að vera hér í nótt á hinu frábæra hóteli sem heitir auðvitað Framtið! Borðuðum hér dýrindis kvöldverð og notalegheit bjálkahúsanna svíkja ekki!
Erum búin að fara frá Egilsstöðum til Reyðarfjarðar, Eskifjarðar og yfir Oddskarð (um göng reyndar) til Kaupstaðarins á Nesi við Norðfjörð og síðan til baka og gegnum mikil göng til Fáskrúðsfjarðar, Stöðvarfjarðar, Breiðdalsvíkur og enduðum hér á Djúpavogi.

Uppbyggingin er ótrúleg. Bjartsýni og hugur blasir við. Hvílík breyting! Ísland er allt einu allt í byggð, höfum hitt gott fólk allsstaðar. Hefur sína meiningu og alls staðar er sjálfstætt fólk sem hvetur okkur áfram. Hittum flokksmenn og dreifðum blöðum en mest um vert er að finna kraftinn í samfélögunum. Hvernig er hægt að afneita slíku? Af hverju eiga ekki fleiri að njóta þegar möguleikarnir blasa við? Umhverfisvæn orka sem spillir ekki andrúmsloftinu, frábært.
Skrifa meira á morgun um ferðina sem hefur verið alveg meiriháttar.


Kosningaferð til Austurlands

 Nú rétt strax leggjum við hjónin upp í kosningaferðalag um Austfirði. Förum á alla staði sem við náum til á næstu þremur dögum. Byrjum á Grímsstöðum á Fjöllum og endum á Djúpavogi.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Sigurjón Benediktsson
Sigurjón  Benediktsson

Ég er fyrrverandi tannlæknir á Húsavík til 37 ára, fyrrverandikennari við Tannlæknadeild Háskólans í Tromsö. Starfa nú sem óhaður tannlæknir á Íslandi. Er ekki í framboði. Netfangið mitt er: skefill@gmail.com

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.8.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband