Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Loksins eru þau að koma!!

Klukkan sex að staðartíma þá koma jólin, sólin er að vísu farin að lyftast á himni fyrir tveimur dögum, hátíð þeirra himnafeðga búin að standa í raun allan desember, þriggja milljarða metið féll á messu heilags Þorláks og ég búinn að ganga allan Lagaveginn tvisvar, en klukkan sex þá gerist það. Megi friður ná í okkar köldu gráðugu hjörtu og skálum fyrir þeim sem horfnir eru.
Gekk um allt Kjalarnesið í dag. Einu sinni var það þakið skógi þannig að braut var í gegnum skóginn að Brautarholti, nú nakin jörð. Hét sjálfum mér því að gróðursetja tré eins og þrekið leyfir fram á bakkann. Gleðileg jól - allir sem bera þetta augum, megi friður vera með yður öllum.

Jólastemming- eða hvað?

Nú skil ég loksins hvað það er að "forpokast, vera "forpokalegur" , að vera sveitajúlli og hálfgerður lúði. Hitti marga af þessum tegundum í dag. Var dreginn til Reykjavíkur að elta þessi blessuð börn eins og það þurfi nú að vera elta þau, litlu skinnin. Ég er svakalega ánægður með að vera hér , lenti í tveggja tím a biðröð hjá Bónusfeðgum, og það er lummó, en nauðsynlegt til að ná upp stemmningunni, sýndist mér á öllum. Í vínbúðinni var allur bjór búinn, svo maður fékk sér bara sterkt, ja það gerðu hinir! Það er raunar hálfpúkó svona á jólunum. Svo fór ég í Europris, týndi konunni og körfunni og fór út með ekki neitt, ég sem ætlaði að kaupa svo mikið þar. Það var kauðalegt. Sem sagt það þurfti ferð til Reykjavíkur til að upplifa allan þann hallærislega gerviheim jólanna sem við forpokaðir sveitajúllar erum alltaf að sakna. Næstu jól - vel forpokuð og allsvakalega lúðaleg - heima í sveitajúllinu takk fyrir.

Flóð á Íslandi!

Hvað erum við búin að gera? Það linnir ekki fréttum af flóðum sem eiga sér ekki hliðstæðu. Frárennsliskerfi hafa ekki undan, náttúrulegir farvegir eru svo aðþrengdir og breyttir að þeir duga ekki lengur. Gróður tekur ekki við vatninu og jarðvegur skolast burt. Hvað mikið af þessu er afleiðing af vitlausum ákvörðunum? Akureyri er á floti og vatn flæðir inn í hús, hér á Húsavík erum við enn ekki búin að fikta svo mikið í litlu ánum okkar að það breyti einhverju um vatnsflauminn. Á Suðurlandi er allt í vatns höndum og líf og eignir í hættu. Ölfusá fjórföld og elstu menn muna ekki neitt lengur. Vorflóð eru eðlilegur hluti náttúrunnar, en nú er vetur!

Erlent starfsfólk á Íslandi. Annað sjónarhorn?

Þó best sé að fara með gát og tala ígrundað um málefni útlendinga þá verður að vera hægt að ræða þessi mál án fordóma og án forræðishyggju. Þannig er, að heilbrigðiskerfi landsins er ekki í stakk búið til að takast á við heilsuvandamál sem eru okkur ókunn og framandi. Það er þekkt að þjóðir og þjóðflokkar bera með sér mismunandi sjúkdóma, annarkonar sýkla, bregðast mismunandi við lyfjum, hafa önnur viðhorf til heilsu, heilbrigðis og hollustu. Legg áherslu á að við Íslendingar erum alls ekki fyrirmynd eða bestir eða heilbrigðastir. Langt í frá. Við erum með okkar sérkenni og okkar læknisfræðigrunn, okkar galla og kosti. En þrátt fyrir alla visku og lærdóm þá er það reynslan sem ber læknisfræðina uppi og reynsla okkar er takmörkuð hvað varðar það að lækna útlendinga, eðlilega. Það versta er, að slakt heilbrigðiskerfi okkar ræður alls ekki við þessi vandamál, þetta snýst ekki einungis um krónur og aura, heldur marga aðra þætti sem tekur langan tíma að innleiða. Það kostaði t.d. 188 milljónir aukaútgjöld í heilbrigðiskerfinu að lækna útlendinga sem hvergi voru tryggðir. Af hverju voru þeir ekki tryggðir? Hverju hefði það svo breytt um lækningu þeirra? Hver var læknisfræðilegi árangurinn af þessum 188 milljónum?


Hvar er versta hlutfall milli veðurs og umferðar? Hvar eru strandsiglingar?

Í þeirri umræðu sem hefur farið fram um gagnsemi vegabóta hefur ekki komið fram hvar versta veðrið og mesta umferðin er á móti ástandi og stöðu vega. Rétt væri að hafa þær upplýsingar til hliðsjónar þegar verið er að ákveða að fara út í stórframkvæmdir. Slysatíðni er svo einn þátturinn sem á að vera inn í myndinni. Prófkjörsáhyggjur og kosningaskjálfti geta ekki og mega ekki ráða slíkum ákvörðunum. Pottur lýðskrumsins er stór og þar vellur. Ef allt væri tekið með þá er ljóst að strandsiglingar hafa vinninginn gagnvart öllum þessum þáttum. En hvar eru þær siglingar?

Álver --einu skrefi nær?

Þó allir sem lesi fréttir mbl.is hafi þessar fréttir, þá ætla ég að lýsa ánægju minni með þessa niðurstöðu að mikill meirihluti Norðlendinga sé fylgjandi álveri við Bakka í Húsavíkurhverfi, Noðurþingi. Grundvöllurinn er samt að orka fáist og finnist til orkufreks iðnaðar. Það er það mikilvæga í málinu og vert að hvetja til að þær kannanir og athuganir hafi forgang í nýju fyrirtæki sem áður var Landsvirkjun. Afstaða þingmanna liggur fyrir. Tveir þingmenn Vinstri grænnna eru á móti öllu slíku en allir aðrir hafa lýst sig fylgjandi málinu. Það gildir einnig fyrir þá sem tóku þátt í prófkjörum flokkanna.
mbl.is Meirihluti íbúa á Norðurlandi hlynntur álveri á Bakka við Húsavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er framsókn elliær?

Í gær átti framsókn afmæli. Við fórum tveir fulltrúar Sjálfstæðisfélagsins hér á grautarfund framsóknar sem var jafnframt afmælisfagnaður þeirra. Framsókn hér á Húsavík hefur haft vit og getu til þess að hittast einu sinni í viku yfir veturinn milli 11 og tólf á laugardagsmorgnum. Vel var mætt hjá maddömuni. Við færðum þeim blóm frá flokknum og ég afhenti þeim bók Steingríms J "Við öll" með kveðju frá höfundinum sem hljóðaði einhvern veginn svona : Afmæliskveðjur til flokksins sem hefur ekki notið starfskrafta okkar undirritaðra. Skrifaði hann þetta sjálfur um morguninn en þá var hann að kynna bók sína í bókabúðinni. Voru allir glaðir við gjafir þessar. Grauturinn var líka góður hjá framsókn og loftkökurnar sömuleiðis. Ef ég væri ekki svona kurteis þá hefði ég talið þetta teikn og mikil skilaboð. Valgerður kom og var vel fagnað, en við fórum og var brottför okkar vel fagnað.

Úrslit prófjörs Sjálfstæðisflokksins í NA-kjördæmi

Úrslitin eru í þessari skrá http: //sigurjonben.blog.is/users/31/sigurjonben/files/urslit.tiff

Kann ekki almennilega á þetta en ef einhver getur gert þetta aðgengilegra þá má alveg láta mig vita. Með fyrirfram þökk.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Allt tómur misskilningur!

Nei, nei, ekkert er rétt sem skrifað hefur verið. Allt er blóma og engin þörf á sameiningu eða samvinnu. Akureyri og þórshöfn eru sko ekki á þeim buxunum að þurfa eitthvað asnalegt "bakland". Er það ekki líka eitthvað hálfdónó? Örugglega fundið up á Húsavík! Nú í vikunni gáfu öðlingarnir í Síldarvinnslunni okkur í Norðurþingi aflóga bræðsluna á Raufarhöfn. Virkilega fínt hjá þeim að losa sig við verksmiðjuna í sveitarfélagshítina. Ísfélagið gefur sjálfsagt Akureyringum Krossanesbræðsluna síðar á árinu með tilþrifum. Er ekki von á fleiri gjöfum? Hvenær ætli ríkið gefi okkur viðhaldssnauðar heilbrigðisstofnanirnar í héraðinu? Eða Samherji gefi hverju fátæku barni fimmkall á jólunum í tilefni af flutningi fyrirtækisins suður um höf? Eða Brim gefi hverjum starfsmanni eitt flak í lok síðasta vinnudagsins í vinnsluhúsunum þeirra? Og Vísir hf.... ekki klikkar hann, hann setur upp jólaútsölu allt árið með vörur úr Kolaportinu í fiskvinnslum sínum á Húsavík enda ekkert með húsnæðið að gera eftir að hótelbransinn í frystihúsinu gekk ekki upp! Jæja það er gott að það er best að búa í Kópavogi --- þar sem er verið að gera ráð fyrir 3000 íbúum á næstu árum . En hvar eigum við hinir að búa?

Hvað verður um norðausturland?

Fækkun íbúa er vandamál sem erfitt er að glíma við. Þegar einn fer, kallar það á að einhver annar fari og svo koll af kolli. Bakkafjörður er í þessum ferli, Raufarhöfn hefur verið í þessum ferli, Kópasker, Vopnafjörður og Húsavík einnig. Akureyri á brúninni. Fólksfækkunin er í raun ekki tengd neinu sérstöku. Færri börn í heimili, fleiri börn fara í skóla frá heimilum, gylliboð um ekki neitt frá þéttbýlli stöðum. Ótrygg atvinna, einhæf. Allt tilgátur. Það er líka sérkennilegt að þéttbýlisstaðir sem fyrir eru, eru ekki viðkomustaðir þeirra sem flytja úr héraði. Það er vissulega gott að búa í Kópavogi, en það er líka gott á Kópaskeri. Akureyri verður að fara að rækta sitt bakland. Sinna því. Bakland er það svæði sem leitar eftir þjónustu og verslun á einhverjum ákveðnum stað. Þessi ákveðni staður er Akureyri í hugum flestra Þingeyinga. Ekkert bakland. Enginn vöxtur. Engin framtíð. Eigum við ekki að fara að bretta upp ermar? Ekkert landbyggðarvæl heldur rökrétt viðbrögð við áreiti.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Sigurjón Benediktsson
Sigurjón  Benediktsson

Ég er fyrrverandi tannlæknir á Húsavík til 37 ára, fyrrverandikennari við Tannlæknadeild Háskólans í Tromsö. Starfa nú sem óhaður tannlæknir á Íslandi. Er ekki í framboði. Netfangið mitt er: skefill@gmail.com

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.8.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 10
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband